Pjakkur sumarið 2004

laugardagur, 27. desember 2008

Auglýsi eftir sólgleraugum!!!

Takið eftir, þetta var skrifað í gær. Eftir að reyna í 3 tíma að pósta þessu þá gafst ég upp á netsambandinu mínu og ákvað að reyna aftur í dag, sunnudag:

Í dag henti ég sólgleraugunum mínum. Einhverjir munu þá hugsa: hmmm af hverju ætli hún hafi gert það? Það er góð spurning og ennþá betra svar sem fæst við henni. Ég hef nefnilega þann einstaka hæfileika að missa hluti ofan í klósettið. Sem er ástæðan fyrir því að ég hef vanið mig á það að loka alltaf klósettsetunni svo að ég geti nú bjargað kannski einhverjum hlutum. Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári rústaði ég heimasímanum hjá mömmu með því að leyfa honum að baða sig í klósettvatninu. Ég var að tala við Karinu í heimasímann hennar mömmu og var eitthvað að horfa í spegilinn í leiðinni. Svo missti ég allt í einu símtólið og það skoppaði af vaskinum á borðbrúnina, þaðan á klósettsetuna og svo blúbb ofan í klósettið. Síminn þoldi ekki baðið og þurfti að kaupa nýjan. Í dag var ég á leiðinni út og var með sólgleraugun krækt framan á hlýrabolinn minn. Svo ákvað ég að fríska aðeins upp á hárgreiðsluna mína og greiddi mér smá. Síðan opnaði ég klósettsetuna til að henda hárum úr hárburstanum ofan í og blúbb, það fóru ekki bara hár ofan í klósettið heldur sólgleraugun mín líka. Þannig að ég mun koma einstaklega augna hrukkótt heim þar sem ég hef þurft að píra augun alveg einstaklega mikið þessa vikuna! Ekki það að ég muni eitthvað oft eftir að vera með sólgleraugu þegar ég fer út, en það var samt gott að vita af þeim ofan í skúffunni minni þó svo að ég gleymdi þeim þar í 85% tilvika.

Eins og þið vitið þá á ég það til að vera pínu spes. Ég sem fer aldrei í sólbað skellti mér í 1 og hálfan tíma í gær með Ranný sem býr hérna í húsinu. Það datt engum öðrum í hug að fara í sólbað á þessum tíma, vindurinn var svo svakalega mikill og ískaldur. Ég var að krókna úr kulda, en lét mig samt hafa það. En þegar sólbekkirnir voru farnir að fjúka og eitt lítið pálmatré var komið á hliðina hugsuðum við, nei heyrðu við förum nú ekki að gera okkur að fíflum lengur með því að liggja í sólbaði þegar garðurinn er að fjúka til fjandans. Já en þetta var semsagt dagurinn sem að ég ákveð að sóla mig. Mér finnst þetta það reyndar svakalega dónalegt af vindinum að blása þarna þar sem að ég get bara farið í garðinn á laugardögum þegar ég er í fríi. 

Ég hef miklar fréttir að deila með ykkur... ég mun líklega koma heim 3. eða 5. janúar! Það er allt troðið í vélinni sem átti að fara 14. janúar heim en er búið að breyta til 12. janúar. Þeir ákváðu nefnilega að sameina flugið með Heimsferðum svo að ég kemst ekki með þá. Svo var spurning um að fara heim í gegnum Tenerife 13. janúar en mér skilst að það sé líka orðið troðfullt. Þannig að ég verð líklegast komin heim fyrir þrettándann. Kannski ég skelli mér bara á brennu þetta árið?! Hef ekki farið síðan ég var 14 eða 15. Það væri kannski gaman að fara og syngja þrettándalög... 

En já á meðan ég man, GLEÐILEG JÓL ÖLL SÖMUL OG GLEÐILEGT NÝTT ÁR!!! TAKK FYRIR ÞAÐ LIÐNA :D 
Ég hafði það bara mjög gott á aðfangadag. Það er náttúrulega ekkert svakalega jólalegt hérna svo að ég get ekki sagt að ég hafi verið að deyja úr jólafíling en þetta var alveg svakalega næs. Ég hætti að vinna klukkutíma fyrr og fór í jólamessu klukkan 14:30. Hérna munu eflaust einhverjir verða svakalega hissa og hugsa jeminn Þórdís í messu, er heimurinn að farast! En nei nei engar áhyggjur heimurinn er ekki að farast. Þetta var afskaplega fín messa hjá henni Jónu Lísu, prestinum hérna, með mjög mikið af jólalögum til að syngja. Það var ekkert smá gaman að fá að syngja jólalög með fólki. Ekki bara ég að bögga nágrannana. Ég held að nágrannarnir séu búnir að hlusta á Frostrósirnar 2004 diskinn svona 200 sinnum núna. Hljóta að vera orðnir léttgeggjaðir. Við erum sko að tala um það að einangrunin milli íbúða er engin, ég heyrði í manninum við hliðina á blístra jólalag í gegnum vegginn í dag. Það var mjög vel blístrað hjá honum, lagið var I wish it could be Xmas every day! En eftir messu þá sagði maður náttúrulega gleðileg jól við þá sem maður sá og þekkti. Svo fórum við Jóna Lísa og Palli á kaffihús sem heitir Cafe Paris, ég fékk mér reyndar ekki kakó svo að ég get ekki sagt ykkur muninn á kakóinu á Paris hér og heima en kökusneiðin var svakalega góð. Súkkulaði kaka með einhverju mandarínu dóteríi á milli laga (ég er semsagt að fara í aðhald um leið og ég kem heim svo að buxurnar losni aftur utan af mér... alltof mikið kæruleysi í gangi hérna). Við Jóna Lísa elduðum svo saman heima hjá mér kalkúnabringu. Svo var waldorfsalat með og kartöflur. Þetta var mjög gott og við höfðum alveg yndislega afslappaðan aðfangadagsmat. Síðar um kvöldið fór ég á pöbbarölt í Yumbo með Palla og við enduðum á norskum bar þar sem að fullt af öðrum Íslendingum safnaðist svo saman. Svo mætti ég svakalega ósofin í vinnuna kl. 8:30 á Jóladagsmorgun. 

1 ummæli:

Bína sagði...

Hæ Sæta! vona að þú hafirhaft það sem allra best um jólin! alltaf skrítið að halda jóla langt heiman frá, maður þekkir það nú alveg :) vertu svo áfram dugleg að blogga til að ég geti fylgst áfram með þér :)

knús frá Århus
Bína

R.I.P. Pjakkur (23.05.2004 - 22.11.2007)

R.I.P. Pjakkur (23.05.2004 - 22.11.2007)
Pjakksalingurinn minn þín er sárt saknað.