Pjakkur sumarið 2004

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Á íslandi!!!

Þá er maður kominn heim. Kom reyndar heim 3. janúar þannig að þessar fréttir eru svolítið eftir á en það verður bara að hafa það. Ég var nefnilega í sjúkraprófum 12. og 13. janúar þannig að ég var ekkert að tilkynna það allt of mikið að maður væri á landinu. Ég veit nú ekki hvernig mér gekk en ég skal láta vita um leið og ég veit. En þegar ég fór í prófið á mánudaginn þá vá, ókei, maður þarf að ná bæði A og B hluta og ég las yfir prófið og hugsaði: ,,Ókei, ég geri B hlutann og svo skýt ég mig!" En það kemur í ljós hvort að ég þurfti að hafa þessar sjálfsmorðs hugsanir í prófinu eða ekki seinna. Vonandi kemur það í ljós sem fyrst því að ég er ekki að höndla þessa bið neitt svakalega vel. Er kannski ekki eins þolinmóð manneskja og ég þykist stundum vera.

Annað í fréttum er það að ég ætla mér ekki að fara aftur til Kanarí. Helvítis karlinn skuldar mér samt ca. 400 evrur sem er alveg ágætis peningur á íslensku gengi í augnablikinu og mig munar um allt. Það er erfitt að vera kreppustúdent og kreppuíslendingur í útlöndum! En ég er orðin full time háskólanemi og finnst það bara ágætt. Það er reyndar sjúklegur lestur í sagnfræðinni og ég bara skil ekki hvernig kennurunum dettur í hug að maður geti komist yfir þetta allt. Ég sver það, það er meiri lestur í sagnfræðinni en í lögfræðinni! Munurinn er bara sá að ólíkt lögfræðinni þá er sagnfræðin skemmtileg. Ég er t.d. í mjög áhugaverðum áfanga núna sem heitir Handrita- og skjalalestur 1300-1800. Það er svona svipað því að púsla að ráða í sum handritin og mér finnst mjög gaman að púsla þannig að þetta er bara allt í gúdderíi. Svo fékk ég líka mjög mikla æfingu í að lesa óskiljanlegar skriftir á clinicunni úti. Stundum var ég bara ókei, úllen dúllen doff segjum að þessi stafur sé E. Mjög mikil skemmtun.

En allavega, nenni ekki að skrifa meira í bili ;)
Reyni að skrifa eitthvað aftur fljótlega... hmmm sjáum hvernig það gengur híhí... ég allavega lofa því að reyna að muna eftir því... :D

laugardagur, 27. desember 2008

Auglýsi eftir sólgleraugum!!!

Takið eftir, þetta var skrifað í gær. Eftir að reyna í 3 tíma að pósta þessu þá gafst ég upp á netsambandinu mínu og ákvað að reyna aftur í dag, sunnudag:

Í dag henti ég sólgleraugunum mínum. Einhverjir munu þá hugsa: hmmm af hverju ætli hún hafi gert það? Það er góð spurning og ennþá betra svar sem fæst við henni. Ég hef nefnilega þann einstaka hæfileika að missa hluti ofan í klósettið. Sem er ástæðan fyrir því að ég hef vanið mig á það að loka alltaf klósettsetunni svo að ég geti nú bjargað kannski einhverjum hlutum. Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári rústaði ég heimasímanum hjá mömmu með því að leyfa honum að baða sig í klósettvatninu. Ég var að tala við Karinu í heimasímann hennar mömmu og var eitthvað að horfa í spegilinn í leiðinni. Svo missti ég allt í einu símtólið og það skoppaði af vaskinum á borðbrúnina, þaðan á klósettsetuna og svo blúbb ofan í klósettið. Síminn þoldi ekki baðið og þurfti að kaupa nýjan. Í dag var ég á leiðinni út og var með sólgleraugun krækt framan á hlýrabolinn minn. Svo ákvað ég að fríska aðeins upp á hárgreiðsluna mína og greiddi mér smá. Síðan opnaði ég klósettsetuna til að henda hárum úr hárburstanum ofan í og blúbb, það fóru ekki bara hár ofan í klósettið heldur sólgleraugun mín líka. Þannig að ég mun koma einstaklega augna hrukkótt heim þar sem ég hef þurft að píra augun alveg einstaklega mikið þessa vikuna! Ekki það að ég muni eitthvað oft eftir að vera með sólgleraugu þegar ég fer út, en það var samt gott að vita af þeim ofan í skúffunni minni þó svo að ég gleymdi þeim þar í 85% tilvika.

Eins og þið vitið þá á ég það til að vera pínu spes. Ég sem fer aldrei í sólbað skellti mér í 1 og hálfan tíma í gær með Ranný sem býr hérna í húsinu. Það datt engum öðrum í hug að fara í sólbað á þessum tíma, vindurinn var svo svakalega mikill og ískaldur. Ég var að krókna úr kulda, en lét mig samt hafa það. En þegar sólbekkirnir voru farnir að fjúka og eitt lítið pálmatré var komið á hliðina hugsuðum við, nei heyrðu við förum nú ekki að gera okkur að fíflum lengur með því að liggja í sólbaði þegar garðurinn er að fjúka til fjandans. Já en þetta var semsagt dagurinn sem að ég ákveð að sóla mig. Mér finnst þetta það reyndar svakalega dónalegt af vindinum að blása þarna þar sem að ég get bara farið í garðinn á laugardögum þegar ég er í fríi. 

Ég hef miklar fréttir að deila með ykkur... ég mun líklega koma heim 3. eða 5. janúar! Það er allt troðið í vélinni sem átti að fara 14. janúar heim en er búið að breyta til 12. janúar. Þeir ákváðu nefnilega að sameina flugið með Heimsferðum svo að ég kemst ekki með þá. Svo var spurning um að fara heim í gegnum Tenerife 13. janúar en mér skilst að það sé líka orðið troðfullt. Þannig að ég verð líklegast komin heim fyrir þrettándann. Kannski ég skelli mér bara á brennu þetta árið?! Hef ekki farið síðan ég var 14 eða 15. Það væri kannski gaman að fara og syngja þrettándalög... 

En já á meðan ég man, GLEÐILEG JÓL ÖLL SÖMUL OG GLEÐILEGT NÝTT ÁR!!! TAKK FYRIR ÞAÐ LIÐNA :D 
Ég hafði það bara mjög gott á aðfangadag. Það er náttúrulega ekkert svakalega jólalegt hérna svo að ég get ekki sagt að ég hafi verið að deyja úr jólafíling en þetta var alveg svakalega næs. Ég hætti að vinna klukkutíma fyrr og fór í jólamessu klukkan 14:30. Hérna munu eflaust einhverjir verða svakalega hissa og hugsa jeminn Þórdís í messu, er heimurinn að farast! En nei nei engar áhyggjur heimurinn er ekki að farast. Þetta var afskaplega fín messa hjá henni Jónu Lísu, prestinum hérna, með mjög mikið af jólalögum til að syngja. Það var ekkert smá gaman að fá að syngja jólalög með fólki. Ekki bara ég að bögga nágrannana. Ég held að nágrannarnir séu búnir að hlusta á Frostrósirnar 2004 diskinn svona 200 sinnum núna. Hljóta að vera orðnir léttgeggjaðir. Við erum sko að tala um það að einangrunin milli íbúða er engin, ég heyrði í manninum við hliðina á blístra jólalag í gegnum vegginn í dag. Það var mjög vel blístrað hjá honum, lagið var I wish it could be Xmas every day! En eftir messu þá sagði maður náttúrulega gleðileg jól við þá sem maður sá og þekkti. Svo fórum við Jóna Lísa og Palli á kaffihús sem heitir Cafe Paris, ég fékk mér reyndar ekki kakó svo að ég get ekki sagt ykkur muninn á kakóinu á Paris hér og heima en kökusneiðin var svakalega góð. Súkkulaði kaka með einhverju mandarínu dóteríi á milli laga (ég er semsagt að fara í aðhald um leið og ég kem heim svo að buxurnar losni aftur utan af mér... alltof mikið kæruleysi í gangi hérna). Við Jóna Lísa elduðum svo saman heima hjá mér kalkúnabringu. Svo var waldorfsalat með og kartöflur. Þetta var mjög gott og við höfðum alveg yndislega afslappaðan aðfangadagsmat. Síðar um kvöldið fór ég á pöbbarölt í Yumbo með Palla og við enduðum á norskum bar þar sem að fullt af öðrum Íslendingum safnaðist svo saman. Svo mætti ég svakalega ósofin í vinnuna kl. 8:30 á Jóladagsmorgun. 

þriðjudagur, 9. desember 2008

Váááhhtssss............

Ætla að fá að endurtaka það aftur, váhhh!!!
Það kom gaur á clinicuna í dag. Hann kom inn ber að ofan í peysu sem var rennd niður og VÁÁÁHHH hvað hann var með svakalega flotta magavöðva!!!! Svo þurfti hann endilega að renna upp peysunni en jæja. Hann er geðveikt sætur og flottur + hann er búinn að vera hérna síðan í október og fer heim í maí. Já og var ég búin að minnast á að hann er frá Rússlandi, en búinn að búa í Finnlandi í nokkur ár. Ms Ice-bitch kom með þá hugdettu að hann ynni hér sem strippari. Það eru víst svakalega margir útlendingar og straight gaurar sem að vinna hérna í strippi. Mér finnst það ógeðslega fyndið, hehehe... :þ
Ég talaði nú ekkert við hann þar sem að Ms Ice-bitch talaði við hann á finnsku en hann þarf að koma næstu tvo dagana til að láta skipta um umbúðir á sárinu á hnénu. Vona bara að hann komi fyrir kl. 15 :D
Og já svo að þið vitið það þá er ég ekki einhver stalker og veit þannig hvar hann býr og alles hérna... Ég kíkti á tryggingar- og læknapappírana hjá okkur... hehe... þurfti hvort eð er að setja upplýsingarnar inn í tölvuna...

föstudagur, 5. desember 2008

Er pirruð!!!

Bahhhh…. sjúkrabílagaurarnir eru að gera mig geðveika!!!

En áður en ég kem að því þá er helst í fréttum það að ég er búin að fá samning í allan vetur ;) Er bæði ánægð og ekki með það. Verð að viðurkenna að mér fannst tilhugsunin um að fara heim ekkert skelfileg. En ekki misskilja mig, mér líður alveg ágætlega hérna ég á bara svo frábæra vini og fjölskyldu heima að já.. :-D óþarfi að segja meira. En ég kem heim 14. janúar í 2 vikur og hlakka til að hitta þá sem verða á landinu þá :D

 

En já, ég var að vinna og við þurftum að senda sjúkrabíl eftir sjúkling og fara síðan með sjúklinginn í boxið sem er í rauninni herbergi á hlið húsins, þar sem clinican er, þar sem að við erum með nokkur sjúkrarúm og þar er semsagt hægt að “leggja inn” sjúklinga sem þurfa í æð eða eftirlit í 1-3 tíma. “Uppáhalds”vinir mínir voru semsagt að vinna og komu með sjúklinginn sem var Íslendingur svo að ég þurfti að vera þarna að þýða. Svo erum við í boxinu, ég, hjúkkan, læknirinn og sjúkrabílagaurarnir þegar annar þeirra (ekki sá sem er alltaf að bjóða mér út heldur hinn) segir við mig: Þórdís, X vill fara með þig út að borða þannig að geturðu ekki hætt að læra eitt kvöld!!! Og það fyrir framan alla! + það er sko ekkert verið að spurja mig hvort að ég VILJI fara út með honum heldur er það HANN VILL FARA MEÐ ÞIG ÚT AÐ BORÐA! Eins og það skipti mig einhverju máli hvað HANN VILL!!! Ég sagði að námið væri númer 1, 2 og 3 hjá mér og það gengi alltaf fyrir svo að nei ég gæti ekki tekið eina kvöldstund frá. Þá byrjar hann að tuða í mér (og notabeni þetta er ekki einu sinni gaurinn sem vill fara með mér út að borða heldur sá sem vinnur með honum, djöfull eru þeir pirrandi!!!) að maður megi ekki læra yfir sig og blablabla. Ég sagði á móti að ég væri nú bara búin að vera að læra í 3 mánuði af síðustu 18 þannig að ég hefði nú alveg margra mánaða úthald í viðbót. Ég er búin að gefa þvílíkt margar vísbendinar um það að ég hafi gjörsamlega ENGAN áhuga og að ég vilji ekki fara út með honum en djöfull eru þeir tregir. Mér skilst reyndar að það sé líklegt að hann haldi áfram endalaust þangað til að annaðhvort ég nái mér í annan gaur eða að ég fari út með honum. Þannig að ég ætla að fara að búa til ímyndunarkærasta sem er að fara að koma frá Íslandi í næstu viku. Við erum semsagt búin að vera “vinir” í einhvern tíma og já núna erum við orðin meira!!! Vonandi fær þetta hann til að hætta þessu helvítis væli. Það er óþolandi að vera að vinna á vinnustað þar sem að maður sem að vinnur í samstarfi við vinnustaðinn lætur mann ekki vera. En bara svo að þið skiljið aðeins um hvað ég er að tala þá er gaurinn augljóslega með ekki mikið milli eyrnanna. Hann er svipað hár og ég sem að mér bara sorrí finnst ekki aðlaðandi og hann er POTTÞÉTT léttari en ég sem að aftur sorrí en það finnst mér ekki heldur spennandi!!! AAAAAAAAAAAAAAARRRRRRRRRRRRRRRRRGGGGG!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

mánudagur, 24. nóvember 2008

Svakalega löng bloggfærsla

Þá drattast ég loksins til að skrifa meira hér á bloggið... Ég hef nú aldrei verið nein wonderwoman í bloggskrifum en mér finnst ég búin að vera helvíti dugleg síðan í október :þ
Ef ég held áfram á 4. vinnudegi þá fóru gaurarnir á sjúkrabílnum með mig á rúntinn hér um svæðið eftir vinnu þann dag. Það er ekki á hverjum degi sem maður rúntar um á sjúkrabíl. Annar er 22 ára og já sýndi augljósan áhuga strax. Fékk að heyra það hvað ég væri með falleg augu og fleira crap. Morguninn eftir var ég síðan á göngu á leiðinni í ódýru, hmm allavega ódýrari búðina sem er lengst í burtu. Þá keyrðu þeir framhjá á sjúkrabílnum og gaurinn fór hálfur út um gluggann og kallaði: Hæ sæta!!! Verð að viðurkenna að það er svolítið skemmtilegt að láta hrópa svoleiðis á eftir sér ;) En svo er hann alltaf að bjóða mér út að borða og er búinn að vera að tala við stelpurnar í vinnunni um að honum langi að bjóða mér í bíó o.s.frv. en já ég hef ekki áhuga. Hann er alveg svakalega óþroskaður. Mér finnst stundum eins og hann sé eins og 15 ára krakki þegar þeir koma að hanga í vinnunni hjá mér. Sem reyndar fer ógeðslega í taugarnar á mér. Á milli útkalla hafa þeir semsagt ekkert að gera og koma ekki bara í hálftíma stopp eða eitthvað svoleiðis sem að væri allt í lagi, heldur hanga þeir kannski í nokkra tíma. Svo þegar ég kom um daginn í vinnuna þá var ein hjúkrunarkonan að þrífa krot á veggnum. Þeir höfðu þá komið um morguninn og þessi semsagt verið að teikna á vegginn. Ég meina halló hver gerir svoleiðis sem er eldri 10 ára. Eða jæja, allavega 14 ára. Það eru til blöð! En ég verð samt að passa mig. Þegar ég verð pirruð á ég það til að missa einhver nasty orð út úr mér. Síðasta mánudag þá var ógeðslega mikið að gera, ég var stressuð út af verkefninu sem ég átti að skila á miðvikudaginn í skólanum og var að vinna með Ms. Ice-Bitch svo að já ég var pirruð. Svo var ég að hugsa út í verkefnið og skrifa hjá mér punkta og sjúkrabílagaurarnir voru að hanga líka og voru bara fyrir þegar gaurinn dirfðist að byrja að tala við mig! ;)
Hehe... hann spurði mig hvort ég kynni eitthvað í þýsku og þá hrökk upp úr mér: Nei en ég kann að segja þegiðu á íslensku! og í smá leiðinlegum og já ekki skemmtilegum tón. Svo fannst mér ég nú hafa verið pínu leiðinleg þannig að ég sagði sorrý ég er bara upptekin af verkefninu og þá kom frá honum og hann meinti það alveg 100%: Já það er vont að hugsa of mikið og nota hausinn! Það var eins gott að ég gat stoppað á mér kjaftinn því að ég var næstum því búin að missa út úr mér: Komandi frá einum sem ekki hefur neinn heila! Það er gott að ég hef góða sjálfstjórn!!! Svo er líka svakalega gott að ég er í fjarnáminu af því að ég er með bestu afsökun ever fyrir að komast ALDREI út að borða eða í bíó eða neitt með honum. Ég er bara hreinlega "ALLTAF" að læra!
En já, að hafa allavega meðalgreindarvísitölu er semsagt á listanum mínum. Unnur mun fatta þetta strax þar sem að það er á hennar lista líka býst ég við...

En já, mér líkar ágætlega hérna og vinnan er fín en mamma ég er alveg 150% viss um að ég mun ALDREI fara í læknisfræði eða hjúkrun þannig að ekki dreyma neitt um svoleiðis. Síðustu dagar hafa fullvissað mig um það að oj ég gæti þetta aldrei. Læknirinn sem var á vakt í gær kom fram eftir að sinna einum sjúkling og þurfti að skipta um skyrtu þar sem að gröftur úr risastóru ógeði á höndinni á honum hafði spýst á alla skyrtuna. Og við erum sko að tala um mikið magn! Ég er ekki á leiðinni að borða hafragraut á næstunni þar sem að þetta minnti mig á hafragraut! hrrr ég er ennþá með hroll!!

Einar sem vann á morgnana á móti mér er hættur. Hann var ekki búinn að fá útborgað á þriðjudaginn síðasta fyrir október mánuð og kom ekki á miðvikudaginn. Læknarnir voru bara að fá núna laun fyrir síðasta mánuð og fengu peningana í 4 ávísunum sem þau geta leyst út á fjórum dögum. Þá fyrstu í dag. Fólk var orðið frekar pirrað, sérstaklega af því að hann talaði ekkert við fólkið eða útskýrði hvað er í gangi og af hverju hann er að borga svona seint. Við vitum að hann segir að það séu efnahagsþrengingar en hann var ekkert búinn að tala við fólkið samt sjálfur. Ég skil það vel að það hafi verið orðið reitt. Ms. Ice-bitch sem að vinnur á morgnana hringdi í mig um 10 leytið á mið morgun og bað mig um að koma fyrr að vinna þann dag. Ég gat það náttúrulega ekki þar sem að ég var að vinna ennþá í verkefninu fyrir skólann sem ég átti að skila þann dag. Þannig að þegar ég mætti í vinnuna kl. 15 eins og vanalega tilkynnti Ms. Ice-bitch mér það að á fimmtudeginum myndi ég byrja að vinna á morgnana. Ég var ekkert spurð hvort ég gæti verið á morgnana eða neitt. Það var bara ætlast til að ég gerði ekkert alla morgna nema að bíða eftir að komast í vinnuna þannig að ég gæti bara komið þegar þeim hentar. Plús það að Ms. Ice-bitch er ekki yfirmanneskja mín. Það er bara eigandinn. Við erum öll samstarfsfólk en það er enginn yfir öðrum á vaktinni. Ég var vægast sagt ekki ánægð þar sem að mér finnst það mjög mikil vanvirðing að eigandinn sem er minn yfirmaður að hann skuli ekki hafa hringt í mig og SPURT hvort ég gæti verið á morgnana. En ég samt mætti á fimmtudaginn um morguninn en fannst það ömurlegt. Ef ég vinn á morgunvakt þá er ég búin kl 15, sem að ég hefði auðvitað viljað frekar heima en ég er ekki heima, og þá á ég bara 3 tíma af deginum eftir þar sem að það fer að myrkva um kl. 18. Ég er ekki að fara að ganga hérna um ein út um allt eftir myrkur. Það er hættulegt. Til að fara í ræktina verð ég að ganga hálftíma hvora leið þannig að þetta er mjög tæpt. En ég er ekki að fara að labba þá leið í myrkri. Í þar síðustu viku kom stelpa á clinicuna sem að hafði lent í árás og vildi fara í prufur. Hún er jafn gömul mér. Var öll út í skrámum og skurðum + andlegt áfall. Ef ég aftur á móti vinn í eftirmiðdaginn þá hef ég alveg 7 tíma í sól, eða alveg frá því að ég vakna og þar til ég fer að vinna. Þá get ég líka gengið róleg í ræktina, í búðina sem er langt í burtu o.s.frv. ef ég vil það. Svo er líka betra fyrir mig að læra á morgnana þar sem að tímarnir eru þá heima og ég hef meira úthald fyrir lærdóminn. Ég talaði við Ms. Ice-bitch á föstudaginn og sagði henni að ég gæti ekki verið alla morgna út af náminu (af því að eigandinn svarar engum öðrum en henni svo að ef maður vill koma einhverju á framfæri fer það í gegnum hana). Hún var þá bara með það sem að mér fannst vera hálfgerar hótanir og sagði að það þyrfti ekki auka manneskju í eftirmiðdaginn þannig að ef að ég gæti ekki verið alla morgna þá myndu þau finna aðra manneskju þá daga sem ég gæti ekki verið og ég myndi bara vinna örfáa daga á viku þar sem að ég fengi ekki að vera í eftirmiðdaginn og ég veit ekki hvað og hvað. Ég var ógeðslega reið þegar ég var búin að tala við hana og ætlaði ekki að sætta mig við eitthvað hlutastarf og að þau gætu bara sett mig á vinnutíma sem væri annar en sá sem var upphaflega samið um án þess að spurja mig. Ég var tilbúin að klára bara nóvember og segja gangi ykkur vel að finna íslending í fullt starf hingað á engum tíma sem að talar góða spænsku! En ég hringdi í eigandann og skildi eftir skilaboð á talhólfinu hans og sagði að ég gæti bara verið á morgunvakt á mánudögum og föstudögum og annan hvern fimmtudag út af náminu sem ég væri í og svo hina dagana í eftirmiðdaginn. Kristín fór síðan og talaði við hann í eftirmiðdaginn á föstudaginn (út af öðru dóteríi). Talið barst að mér og ég veit að ég er semsagt með samning til 14. janúar og verð að vinna á morgunvakt mán, fös og annan hvorn fim og hina dagana verð ég í eftirmiðdaginn alveg eins og ég vildi. Hann var reyndar eitthvað að reyna að færa þetta á þri og fim en það verður ekkert. Önnur Kristín sem að vinnur í almannatengslum fyrir clinicuna verður þá morgna sem að ég er ekki á clinicunni. En þannig að þetta gekk allt upp. Þessa vikuna er ég reyndar að vinna alla morgna nema miðvikudaginn af því að Kristín er enn í veikindafríi eftir slys sem hún lenti í fyrir nokkrum vikum. Já og svo verð ég að vinna á laugardagsmorgnum í staðinn fyrir sunnudagsmorgnum. Það er mjög fínt þar sem að nú get ég troðið mér með Kristínu á ströndina á sunnudögum. Ég nefnilega er engin strandarmanneskja þannig að ég er ekki að nenna að fara ein og er bara búin að fara EINU sinni á ströndina síðan ég kom hingað. Þannig að ég er ennþá sjúklega hvít og mun líklega koma sjúklega hvít aftur heim í janúar. En já ég mun verða bókuð heim með vél þann 14. janúar. Ég veit samt ekki ennþá hvort að það er bara í 2 vikur eða hvort að það er for good þennan veturinn. Það fer eftir því hvernig verður bókað eftir áramót, já hvernig verður með vinnu hérna eftir áramót. Ég er allavega bara ráðin til 14. janúar, eða já pottþétt fram að áramótum. Ég gef ekki meira fyrir loforðin á þessum bæ svo að við sjáum bara hvað verður.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Fyrstu vinnudagarnir!!!

Ég byrjaði að vinna á sunnudaginn og er að vinna í bláum náttfötum ;) Það var svakalega lítið að gera en ég var að vinna stutt svo að það var í gúddí. Í gær þá var eiginlega ekkert að gera (er að vinna frá 15 - 21:30 á virkum dögum) en svo klukkan rétt rúmlega 9 kom maður hlaupandi inn og sagði að það vantaði lækni hinum megin við götuna. Læknirinn sagði mér að hringja á sjúkrabíl og koma svo yfir ef að það þyrfti túlk. Ég bað Sari (finnsk sem vinnur fyrri hlutann á virkum dögum og allan daginn á mánudögum) um að hringja á sjúkrabílinn og hljóp yfir á veitingastað hinum megin við götuna.

Þegar ég kom þangað var mér bent að fara innst og að stiga sem að lá niður að klóstettunum. Ég leit niður og þá lá kona þar meðvitundarlaus, maður hjá henni og svo læknirinn að reyna að tala við neyðarlínuna í símann. Það var ekkert samband þarna niðri svo að símanum var hent í mig og ég beðin um að tala við neyðarlínuna. Ég var spurð að því hvað væri að konunni og alls konar fleiri spurningar sem ég gat ekki svarað. Vá hvað konan var treg. Ég var búin að segja henni að hún gæti ekki talað við lækninn þar sem að það væri ekkert samband niðri og að ég vissi ekki hvað væri að konunni enda hvernig í andskotanum átti ég að vita það. Hún varð bara pirruð og hélt áfram að spyrja. Eins og ég væri ekki sjálf í nægu áfalli yfir að sjá konu fyrir neðan svakalega brattan stiga og ég vissi ekki hvort hún andaði eða hvað. Ég var nálægt því að panika við allt þetta. En ég náði að halda mér eins rólegri og ég gat. Vísaði bráðagaurunum niður og svona. Skemmtilegur dagur 2 í vinnunni.

Dagur 3 var spes líka. Það var mjög rólegt og kom bara einn mjög feitur hjartasjúklinga Íslendingur sem að talaði svo óskýrt að ég þurfti að hlusta vel til að skilja hvað hann sagði. Svo kom sænsk kona sem að hafði dottið og þurfti að sauma á henni hnéð. Ég heyrði að þær ætluðu að sauma og hugsaði fyrst OJ! Svo hugsaði ég,: hmmm það er nú samt ekki á hverjum degi sem ég get séð hné saumað saman. Svo að ég ákvað að fara inn og horfa. Þetta voru 3 spor. Hjúkkan spurði mig svo eftir á (þar sem að Maritta sem vinnur með mér, hún er finnsk, vill aldrei horfa á svona): fannst þér gaman að horfa? Ég sagði nú bara sannleikann við hana og það er að þetta var áhugavert. Samt svolítið fyndið. Feiti maðurinn var með blóðnasir og mér fannst ógeðslegt að horfa á tappann sem kom úr nefinu á honum með einhverju smá nasablóði í en mér fannst ekkert ógeðslegt og bara áhugavert að horfa á hnéð saumað saman. Talandi um að vera crazy!

Það kom líka einn hommi frá Austurríki og vá hvað ég hló mikið þegar hann var farinn og ég fékk að heyra hvað var málið. Ég hélt ég myndi deyja úr hlátri. Gaurinn kom inn og spurði mig hvort að læknirinn væri kona eða karl. Og ég sagði honum að læknirinn á vakt í dag væri kona. Hann spurði mig þá hvort að hún væri “gay friendly” og ég var alveg he? af hverju ætti hún ekki að vera það. Ég meina um helmingur af þeim sem að búa hérna eru gay. Ef einhver ætlaði að vinna hérna og væri með fóbíu fyrir samkynhneigðum þá myndi ég nú ráðleggja honum að vinna einhversstaðar annarsstaðar. En ég spurði hann hvort að hann vildi að ég færi inn með honum að túlka fyrir hann og hann var svolítið stress legur og vildi ekki að ég myndi koma. Hann vildi reyna að fara inn einn fyrst. Og ég var alveg ókei ekki málið, þið bara kallið ef ykkur vantar hjálp. Svo kallaði læknirinn á Marittu (finnska konan sem er að vinna með mér alla daga nema mánudaga) og hún var að gera eitthvað annað svo að ég spurði hvort að hún vildi að ég kæmi. Hún sagði bara nei biddu Marittu að koma strax. Maritta fór inn og allt í lagi. Svo fór maðurinn og ég og hjúkrunarkonan sátum inni í móttöku og yfirheyrðum eitthvað af því sem að læknirinn og Maritta voru að tala um. Það var svo furðulegt að við urðum að fara inn og spurja út í hvað málið hafði verið. Þá hafði gaurinn verið hérna í Yumbo verslunarkjarnanum og látið setja hring á typpið á sér. Hringurinn stíflaði blóðrásina og typpið var orðið rautt og útbólgið. Þær sendu hann á spítalann þar sem að hann þurfti að láta saga hringinn af. Hann ætlaði samt ekki að vilja láta saga hann af fyrst þangað til að læknirinn sagði við hann: Hey annað hvort læturðu saga hringinn af eða typpið! Þú ræður! Vá hvað ég var fegin að læknirinn ákvað að ég væri of ung til að vera inni að þýða fyrir þetta mál! Maritta er 40 og eitthvað. En díses hvað þetta var ógeðslega fyndið. Pældu í vitleysunni hjá manneskjunni að láta setja svona á sig. Dísess…… Hvernig ætli dagur 4 verði á morgun??

þriðjudagur, 28. október 2008

Fullt að gerast á Kanarí!!!

Jæja, þá ætla ég að segja ykkur frá atburðum síðustu daga. 

Á föstudaginn fór ég með Kristínu og nokkrum vinum hennar út að borða. Ég ákvað að fá mér ís í eftirrétt og þegar hann var borinn fram á borðið þá var hann næstum því hærri en ég. Talandi um að fá fullt fyrir peningana. Ég gat ekki einu sinni borðað helminginn af helmingnum því að vá erum við að tala um stóra ísskál. Síðan fórum við á Costa Gabana klúbbinn eins og síðustu helgi þar sem að gaurinn með athyglissýkina er að spila til ca. miðnættis. Hann er samt mjög góður þannig að hann kemst upp með alla þessa sýndarmennsku sína. Það var eitthvað sérstakt kvöld svo að það voru þrír dragstrákar þarna til að skemmta fólkinu líka. Þeir voru svakalega skemmtilegir og sætir, en auðvitað allir hommar og algjör krútt í pínkulitlu fötunum og 100 cm háu hælunum.

Á laugardaginn fór ég aftur á Costa Gabana klúbbinn með Kristínu, Ranný sem býr á hæðinni fyrir neðan mig og Hildu sem að býr á hóteli rétt hjá. Gaurinn var aftur að spila og það var bara ágætt þarna.

Á sunnudagsmorguninn fór ég með Kristínu og Jónu Lísu í ræktina sem þær fara alltaf í til að prufa hana. Hún er ágæt fyrir utan það að það vantar algjörlega teygju og magaæfingaaðstöðu. En ég var svakalega fegin að ég lyfti alveg jafn þungu ennþá og þegar ég fór frá Íslandi. Veit að það er ekki langur tími en ég var búin að vera pínku paranoid með það. Svo fórum við og Hjördís á strönd einhversstaðar ég veit ekki hvar en við þurftum að keyra svolítið til að komast þangað. Við vorum þar milli 12 og 16 og mér tókst að skaðbrenna á rassinum og akkúrat þar sem að allt brjóstarhaldaradraslið er á bakinu á mér. Svakalega notalegt að geta varla setið og svona. Ég kom síðan á hotelið sem ég bý á kl. 16:30. Fer upp og set kortið (lykillinn minn fyrrverandi) í lykladraslið en það virkar ekki. Svo komst ég að því að móttakan var lokuð milli 16 og 22 þannig að ég varð bara að gjöra svo vel að bíða skaðbrunnin í bikiníinu mínu. Sem betur fer býr hún Ranný á hæðinni fyrir neðan mig þannig að ég fékk að troða mér inn á hana. Hún fékk þýskan vin sinn hérna í húsinu til að reyna að opna lykladraslið á hurðinni með skrúfjárni en það dugði ekki. Ég beið síðan með Ranný til rúmlega 10 um kvöldið og hún var æðisleg að leyfa mér að nota aloa vera gelið sem hún á til að setja á brunann hjá mér. Við fórum svo niður í móttöku og þeir endurnýjuðu lyklakortið mitt þar sem að það hafði útrunnið um daginn. Ég fór upp með nýja kortið og það virkaði ekki heldur. Maðurinn í móttökunni reyndi að hjálpa mér og kom upp með eitthvað tæki til að hlaða batteríið í lykladraslinu ef að það skyldi vera búið en tækið varð batteríislaust þannig að ég þurfti að bíða í u.þ.b. klukkutíma og koma svo aftur í móttökuna til að reyna þetta aftur. Greyið Ranný sat uppi með mig allan tímann. Um hálf eitt um nóttina (og notabeni ég var ennþá í bikiníinu!) þá fórum við niður og karlinn kom upp með okkur til að reyna að opna hurðina enn og aftur. Það virkaði ekki og var þá læsingin orðin ónýt. Great!!! Þar sem að það eru komnar flær í rúmið hennar Ranný og hún sefur í sófanum sínum þá bjuggum við til rúmfleti handa mér úr bakpullunum úr sófanum. svo fékk ég lak og flísteppi og svaf bara allt í lagi. Samt ömurlegt. Og já, ég var ennþá í bikiníinu og vá hvað mér finnst óþægilegt að vera svona brjóstarhaldaralaus lengi... Ég hringdi í Klöru og hún hringdi í Stulla íslenskan mann hérna og fékk hann til að koma um daginn og kíkja á þetta. Hann kom svo og braut upp lyklalásakassann svo að það var hægt að komast inn í íbúðina en ég gat ekki læst. Hann hafði keypt nýja læsingu sem að passaði ekki. Ég gat samt farið út en þurfti að taka hurðarhúninn með mér og setja hann í til að opna og taka hann úr aftur. Þannig að ég fór út í búð með hurðarhúninn og ég fór á klörubar með hurðarhúninn með mér. Svaka spes. Svo kom hann aftur í dag og setti læsinguna sem passar ekki þar sem að annað var ekki til. Það þurfti að saga úr hurðarkarminum til að hægt væri að loka hurðinni. Svo skil ég ekki hvernig fólki dettur í hug að eiga ekki ryksugur. Að hreinsa sag með sópi og fægiskóflu er ekki mín hugmynd um góða skemmtun...

R.I.P. Pjakkur (23.05.2004 - 22.11.2007)

R.I.P. Pjakkur (23.05.2004 - 22.11.2007)
Pjakksalingurinn minn þín er sárt saknað.